Hamar aftur í toppsætið

Michael Philips var öflugur í kvöld. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar vann góðan sigur á Fjölni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en liðin mættust í Grafarvoginum.

Hamar byrjaði af krafti í leiknum og leiddi 11-24 eftir 1. leikhluta. Fjölnismenn minnkuðu muninn í 2. leikhluta en staðan var 37-45 í hálfleik.

Hvergerðingar voru sterkir í upphafi seinni hálfleiks og juku þar forskotið í 47-63 og í framhaldinu var munurinn orðinn 18 stig, 54-72. Þá komu Fjölnismenn til baka en náðu ekki að brúa bilið að fullu og Hamarsmenn svöruðu öllum áhlaupum þeirra með góðum körfum í kjölfarið.

Að lokum skildu tíu stig liðin að, 94-104, og Hamar komst aftur í toppsætið með 14 stig, eins og Álftanes, Breiðablik og Sindri.

Michael Philips var sterkur í liði Hamars með 22 stig og 12 fráköst og Þorvaldur Orri Árnason skoraði 20 stig en Hvergerðingar fengu gott framlag úr mörgum áttum.

Tölfræði Hamars: Michael Philips 22/12 fráköst, Þorvaldur Orri Árnason 20, Jose Aldana 19/7 fráköst/11 stoðsendingar, Ruud Lutterman 16/5 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 14, Steinar Snær Guðmundsson 7, Pálmi Geir Jónsson 3/5 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 2, Eyþór Lár Bárðarson 1.

Fyrri greinÁsta nýr stallari Mímis
Næsta greinNíu Íslandsmeistaratitlar til HSK/Selfoss