Um síðustu helgi var Bikarmótið í stökkfimi og hópfimleikum haldið í HK-höllinni í Digranesi. Fimleikadeild Hamars sendi lið til í 4. og 5. flokki og stóðu þau sig frábærlega.
Um var að ræða frumraun beggja flokka á móti en gríðarleg ánægja er innan deildarinnar með að fara aftur af stað með keppnishópa í hópfimleikum eftir langa hvíld.
Stúlkurnar í 5. flokki kepptu á laugardeginum í hópfimleikum, þá kepptu þær í dansi, trampólíni og æfingum á dýnu. Þær stóðu sig með stakri prýði, enduðu í 10. sæti og fengu sérstakt hrós fyrir frammistöðu í dansi.
Stúlkurnar úr 4. flokki kepptu á sunnudeginum í sömu æfingum en þær kepptu í stökkfimi. Þær sýndu frábæra frammistöðu í öllum æfingum og uppskáru sigur á öllum áhöldum. Hamar á því bikarmeistara í stökkfimi í 4. flokki, sem verður að teljast frábær árangur.
„Þessar hæfileikaríku og þrautseigu stelpur hafa þurft að æfa við misgóðar aðstæður síðustu ár þar sem mikil hitavandamál voru í Hamarshöllinni áður en hún eyðilagðist í óveðri þann 22. febrúar síðastliðinn. Þá má ekki gleyma þjálfurunum okkar sem hafa sýnt ótrúlegan dugnað, útsjónarsemi og sveigjanleika í krefjandi aðstæðum án þess að gleyma gleðinni,“ segir í skeyti frá stjórn fimleikadeildar Hamars, sem vill senda sérstakar þakkir til þjálfara og stjórnar fimleikadeildar Þórs í Þorlákshöfn.
„Þjálfurum okkar og iðkendum var þar strax tekið opnum örmum þegar við misstum aðstöðu og áhöld fyrirvaralaust. Stúlkurnar sækja nú æfingar í Þorlákshöfn þrisvar sinnum í viku í glæsilegu fimleikahúsi Þorlákshafnar. Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá Fimleikadeild Hamars þar sem gleði og dugnaður er hafður að leiðarljósi í öllu starfi,“ segir ennfremur í skeytinu.