Hamar í Hveragerði er bikarmeistari í blaki karla, í þriðja skiptið í röð, eftir 3-1 sigur á Vestra í frábærum úrslitaleik Kjöríssbikarsins í Digranesi í Kópavogi í dag.
Leikurinn var jafn framan af fyrstu hrinunni en þá kom frábær kafli hjá Vestra og þeir sigruðu hrinuna 20-25. Hvergerðingar mættu brjálaðir inn í aðra hrinuna og völtuðu yfir Vestra. Munurinn var orðinn 11 stig þegar þeir bláu slökuðu fullmikið á og Vestri náði að minnka muninn niður í 4 stig en Hamar sigraði að lokum 25-19.
Hamar hafði góð tök á þriðju hrinunni, leiddi allan tímann og vann hana að lokum stórt, 25-14. En Vestramenn voru ekki sprungnir, þrátt fyrir að Hamar hefði frumkvæðið í fjórðu hrinunni gekk þeim illa að hrista Vestramenn endanlega af sér en að lokum höfðu þeir 25-21 sigur og unnu leikinn þar með 3-1.
Marcin Grasza var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins en hann var stigahæstur Hamarsmanna með 20 stig.