Hamar byrjar vel gegn Vestra

Jose Aldana skoraði 19 stig og sendi 11 stoðsendingar, auk þess sem hann tók 8 fráköst. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar hefur tekið forystuna í úrslitaeinvíginu gegn Vestra um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta. Liðin mættust í Hveragerði í kvöld þar sem Hamar sigraði 88-79.

Hamar skoraði fyrstu sex stigin í leiknum og var skrefi á undan allan 1. leikhluta. Gestirnir minnkuðu muninn í upphafi 2. leikhluta og komust yfir undir lok hans, en Hamar skoraði þrjú síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi 45-44 í leikhléi.

Vestramenn byrjuðu betur í seinni hálfleik en um miðjan 3. leikhluta gerði Hamar 10-3 áhlaup og breytti stöðunni í 63-57. Hvergerðingar létu forystuna ekki af hendi eftir það og kláruðu leikinn af miklu öryggi í 4. leikhluta.

Jose Aldana var bestur í liði Hamars með 19 stig, 11 stoðsendingar og 8 fráköst.

Liðin mætast næst á Ísafirði á laugardagskvöld og þriðji leikurinn verður í Hveragerði næstkomandi þriðjudag kl. 19:15.

Tölfræði Hamars: Jose Aldana 19/8 fráköst/11 stoðsendingar, Ruud Lutterman 15/6 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 13/7 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 11/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Magni Sigurjónsson 11, Maciek Klimaszewski 10/6 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 7, Óli Gunnar Gestsson 2/4 fráköst.

Fyrri greinFlying Tiger flytur í nýja miðbæinn
Næsta greinStokkseyri varð af mikilvægum stigum