Hamar vann HK 3-1 í annarri viðureign liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla í Digranesi í kvöld.
Hamar leiðir því 2-0 í einvíginu og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð með sigri í þriðja leiknum, sem leikinn verður í Hveragerði næstkomandi mánudagskvöld.
Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi, Hamar komst í 24-16 í fyrstu hrinu en HK jafnaði 24-24. Hamarsmenn settu þá málin í hendur Hafsteins Valdimarssonar, fyrirliða, sem skoraði 2 stig í röð fyrir Hamar af miðjunni og tryggði sínum mönnum sigur í fyrstu hrinu. 24-26.
Aðra hrinu unnu Hamarsmenn svo nokkuð auðveldlega, 26-17, en þriðja hrinan var eign HK-inga sem unnu hana 25-16, þar sem móttaka Hamarsmanna var ekki upp á marga fiska.
Fjórða hrinan var svo hnífjöfn þar sem bæði lið þurftu að berjast fyrir hverju stigi. HK tók forystuna í stöðunni 18-18 en Hamar jafnaði 23-23 og kláraði svo hrinuna 25-23.