Hamar tók á móti Haukum í lokaumferð Domino's-deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Haukar knúðu fram sigur í síðasta fjórðungnum, 71-74.
Hamar skoraði þrettán fyrstu stigin í leiknum en Haukar komu til baka undir lok 1. leikhluta og staðan að honum loknum var 23-22.
Gestirnir náðu síðan fjögurra stiga forskoti í 2. leikhluta, 30-34, en Hamar lauk fyrri hálfleik á 11-2 áhlaupi og staðan var 41-36 í hálfleik.
Sjö fyrstu stigin í seinni hálfleik komu frá Hvergerðingum og sem höfðu þá tólf stiga forskot en gestirnir gáfust ekki upp, svöruðu með 3-13 áhlaupi og minnkuðu muninn í þrjú stig, 60-57.
Haukar komust svo yfir strax í upphafi síðasta fjórðungsins og voru skrefinu á undan það sem eftir lifði leiks, þó að munurinn hafi ekki verið mikill. Haukar höfðu sex stiga forskot þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en Chelsie Schweers skoraði síðustu körfu Hamarsliðsins í vetur þegar rétt mínúta var eftir og minnkaði muninn í 71-74. Það reyndust lokatölur leiksins.
Schweers var stigahæst hjá Hamri með 26 stig, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 14, Fanney Guðmundsdóttir 12, Katrín Össurardóttir 10, Marín Laufey Davíðsdóttir 6 og Sóley Guðgeirsdóttir 3.