Hamar vann Álftanes 3-0 á heimavelli í kvöld í Mizunodeild karla í blaki. Hamarsmenn sitja því enn taplausir á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.
Gestirnir mættu vel stemmdir til leiks og var fyrsta hrinan jöfn og spennandi. Upphækkun þurfti til að útkljá sigurvegara en Hamarsmenn unnu hrinuna að lokum með 29 stigum gegn 27.
Í hrinu tvö voru leikmenn Álftaness komnir á bragðið. Þeir náðu 5-1 forystu áður en Hamarsmenn vöknuðu til lífsins en eftir það hrinan jöfn og hörkuspennandi. Álftnesingar höfðu frumkvæðið en Hamar náði að lokum að jafna 18-18 og vinna hrinuna 25-22.
Eftir þetta virtist allur vindur úr Álftanesmönnum og Hamar vann þriðju hrinuna örugglega 25 – 17 og leikinn þar með 3-0.