Úrvalsdeildarlið Hamars í blaki karla er enn með fullt hús stiga eftir öruggan sigur á Fylki í Hveragerði í kvöld.
Hamar hafði yfirburði allan leikinn. Mótspyrna Fylkis var mest í fyrstu hrinu en fór svo minnkandi. Fór svo að Hamar vann leikinn 25-18, 25-15 og 25-14, samtals 3-0.
Maður leiksins var Wiktor Mielczarek, kantmaður Hamars, en hann var stigahæstur í leiknum með 12 stig, þar af 8 skoruð með smassi, 3 úr uppgjöf og 1 úr hávörn. Stigahæstur í liði Fylkis var Alexander Stefánsson með 7 stig.
Hamar er eftir leikinn í 2. sæti deildarinnar með 12 stig eftir fjóra leiki en HK er á toppnum, einnig með fullt hús stiga en Hamarsmenn eiga leik til góða.