Hamar fékk á sig 75 stig í fyrri hálfleik

Jose Medina var stigahæstur hjá Hamri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss töpuðu sínum leikjum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar heimsótti Ármann en Selfoss tók á móti Breiðabliki.

Leikur Hamars og Ármanns var áhugaverður. Allar varnir Hamars lágu niðri í fyrri hálfleiknum og Ármenningar virtust ætla að valta yfir þá. Staðan í hálfleik var 75-50. Hamar stoppaði lekann í seinni hálfleik en munurinn var orðinn of mikill, þó að Hamar hafi saxað á forskotið, en Ármann vann að lokum 121-108.

Jose Medina var stigahæstur hjá Hamri með 35 stig og 9 stoðsendingar og Jaeden King kom næstur honum með 22 stig. Ragnar Nathanaelsson skilaði sínu á báðum endum vallarins með 17 stig og 9 fráköst.

Á Selfossi náðu Blikar náðu fjlótlega góðu forskoti og leiddu í leikhléi, 26-39. Munurinn jókst enn í 3. leikhluta en Selfoss þjarmaði að Blikum undir lok leiks, án þess þó að ná að brúa bilið. Lokatölur urðu 74-82.

Tölfræðiupplýsingar leiks Selfoss og Breiðabliks liggja ekki fyrir á heimasíðu KKÍ sem stendur.

Hamar er í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en Selfoss í 8. sæti með 4 stig.

Fyrri greinAllt í járnum í Set-höllinni
Næsta greinNaumur sigur Þórsara á heimavelli