Ótrúlegar tölur sáust í kvöld þegar Hamar heimsótti ÍR í Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld. Hamar tapaði 11-4 en á sama tíma tapaði Ægir fyrir Magna, 3-2.
ÍR og Hamar mættust í Egilshöllinni og eftir rúmlega tuttugu mínútur var staðan orðin 4-0 fyrir ÍR. Sölvi Víðisson minnkaði muninn í 4-1 á lokamínútu fyrri hálfleiks en ÍR-ingar náðu að lauma fimmta markinu inn fyrir hlé og staðan var 5-1 í hálfleik.
Sveinn Fannar Brynjarsson opnaði síðari hálfleikinn á öðru marki Hamars en mínútu síðar skoruðu ÍR-ingar sjötta markið. Logi Geir Þorláksson minnkaði muninn í 6-3 á 70. mínútu en ÍR komst fljótlega í 7-3 og Hamar fékk svo á sig þrjú mörk á þrigja mínútna kafla undir lokin.
Tómas Hassing breytti stöðunni í 10-4 á 87. mínútu en ÍR-ingar áttu síðasta orðið og skoruðu fimmtánda mark leiksins úr vítaspyrnu á 88. mínútu. Lokatölur, 11-4.
Hamar er á botni 1-riðils B-deildar án stiga.
Ægismenn leika tvo leiki í Boganum á Akureyri um helgina en í kvöld mættu þeir Magnamönnum.
Ágúst Freyr Hallsson kom Ægi yfir á 15. mínútu en Magnamenn jöfnuðu á 39. mínútu. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Liam Killa, fyrirliði Ægis, tvö gul spjöld á skömmum tíma gegn sínum gömlu félögum og Ægismenn því manni færri í upphafi síðari hálfleiks.
Magnamenn nýttu sér það og skoruðu tvö mörk á fyrstu níu mínútum síðari hálfleiks en bæði komu þau af vítapunktinum.
Leikmaður Ægis fékk svo sitt annað gula spjald á 76. mínútu og því var jafnt í liðunum en Daníel Rögnvaldsson klóraði í bakkann fyrir Ægi með marki á 77. mínútu og lokatölur leiksins urðu 3-2.
Ægir mætir KF í Boganum kl. 15 á morgun en Ægir er í 3. sæti 2-liðils B-deildarinnar með 3 stig.