Hamar tapaði stórt þegar liðið heimsótti Berserki á Víkingsvöllinn í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi.
Leikurinn byrjaði reyndar vel hjá Hamri því Ingþór Björgvinsson kom þeim yfir á 8. mínútu. Berserkir jöfnuðu 1-1 á 21. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Berserkir voru mun kraftmeiri í seinni hálfleik og röðuðu inn fjórum mörkum á fimmtán mínútna kafla þannig að staðan var orðin 5-1 þegar tuttugu mínútur voru eftir. Lokatölur urðu 6-1 þegar Berserkir bættu við síðasta markinu á lokamínútunni.
Toppbaráttan í riðlinum er hörð. Hamar er í 4. sæti riðilsins með 21 stig en Berserkir eru í 2. sæti með 23 stig.