Karlalið Hamars tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins í knattspyrnu með 2-0 sigri á KFS á Grýluvelli.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, barningur á báða bóga og öskurykið þyrlaðist upp af vellinum. Hamar komst yfir á 24. mínútu þegar Ragnar Valberg Sigurjónsson átti góða sendingu fyrir markið á Ingþór Björgvinsson sem skoraði.
Staðan var 1-0 í hálfleik og eftir fimmtán mínútna leik í síðari hálfleik komust Hamarsmenn í 2-0. Þar var Ragnar Valberg að verki eftir góðan undirbúning varamannsins Haraldar Hróðmarssonar.
Síðasta hálftímann voru Eyjamenn meira með boltann og sköpuðu þeir sér nokkur ákjósanleg færi sem öll fóru í súginn. M.a. áttu þeir stangarskot og Björn Aðalsteinsson varði nokkrum sinnum vel í marki Hamars.
Með sigrinum jafnaði Hamar besta árangur sinn í bikarkeppninni en árið 2008 féll liðið úr leik í 16-liða úrslitum í 3-0 tapi gegn Víkingi Reykjavík.
Ellefu leikir fara fram í 32-liða úrslitunum á morgun og fjórir leikir verða á fimmtudag áður en dregið verður í 16-liða úrslit á föstudag.