Hamar bíður enn eftir fyrsta sigrinum í Domino’s-deild kvenna í körfubolta en í kvöld tapaði liðið 69-53 fyrir Haukum á útivelli.
Hamarskonur mættu ákveðnar til leiks og komust í 7-18 en Haukar minnkuðu muninn í 18-23 undir lok 1. leikhluta. Annar leikhlutinn spilaðist svipað og sá fyrsti, Hamar hafði frumkvæðið og náði mest tólf stiga forystu, 24-36. Haukar komu til baka og skoruðu síðustu sjö stigin í fyrri hálfleik og staðan var því 31-36 í leikhléinu.
Haukar komust yfir þegar tæpar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 40-38, og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Hamar minnkaði muninn í 49-44 undir lok 3. leikhluta en í þeim fjórða höfðu Haukar töglin og hagldirnar. Haukar hófu síðasta fjórðunginn á 18-2 áhlaupi og gerðu þar með út um leikinn.
Andrina Rendon var stigahæst hjá Hamri með 21 stig, Þórunn Bjarnadóttir skoraði 10, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 9, Katrín Eik Össurardóttir 8, Heiða B. Valdimarsdóttir 3 og Sóley Guðgeirsdóttir 2.