Hamar tapaði 63-60 þegar liðið heimsótti botnlið Njarðvíkur í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Njarðvíkur eftir ellefu leikja taphrinu.
Heilt yfir var leikurinn hnífjafn, Hamar komst í 6-13 í 1. leikhluta en staðan var 15-16 að honum loknum. Liðin skiptust á að skora í 2. leikhluta og Hamar leiddi í hálfleik, 30-33.
Hamarskonur komu mun ákveðnari til síðari hálfleiks og tóku 3-14 rispu þar sem þær breyttu stöðunni úr 32-33 í 35-47. Njarðvík svaraði með 10 stigum í röð og staðan var 45-47 í upphafi síðasta fjórðungsins.
Hann var æsispennandi en Hamarskonur fóru illa að ráði sínu í sókninni þegar á leið og á síðustu þremur mínútunum skoraði Njarðvík níu stig í röð og breytti stöðunni úr 53-57 í 62-57. Þá voru einungis fimmtán sekúndur eftir af leiknum og Hamar hafði of lítinn tíma til að svara fyrir sig.
Fanney Lind Guðmundsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 24 stig og 10 fráköst. Di’Amber Johnson skoraði 21 stig, Íris Ásgeirsdóttir 6, Sóley Guðgeirsdóttir 5 og Katrín Eik Össurardóttir 4.
Hamar er nú í 6. sæti deildarinnar með 12 stig en getur rétt sinn hlut af þegar liðið fær KR í heimsókn á miðvikudaginn, en KR hefur einnig 12 stig í 5. sæti.