Hamar vann góðan sigur á botnliði Þórs í 1. deild karla í körfubolta þegar liðin mættust á Akureyri í dag.
Hamar tók völdin snemma leiks og leiddi í hálfleik 28-45. Þórsarar söxuðu á forskot Hvergerðinga í síðari hálfleik og munurinn varð minnstur fimm stig, 67-72, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum. Hvergerðingar spyrntu þá við og juku muninn aftur á lokamínútunum.
Julian Nelson var stigahæstur Hvergerðinga með 19 stig, Snorri Þorvaldsson skoraði 18 og Þorsteinn Gunnlaugsson 13 auk þess sem hann tók 10 fráköst. Halldór Gunnar Jónsson og Bjartmar Halldórsson skoruðu 9 stig, Sigurður Orri Hafþórsson 5, Örn Sigurðarson 3, Bjarni Rúnar Lárusson og Hjalti Þorleifsson 2 og Birgir Þór Sverrisson 1. Örn var frákastahæstur Hvergerðinga með 11 fráköst.
Hamar er áfram í 2. sæt í deildinni en liðið hefur 10 stig, eins og Höttur, sem er í toppsætinu.