Hamar grátlega nálægt sigri

Hamar var eina sunnlenska liðið sem náði í stig í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag en Ægir, Stokkseyri og KFR töpuðu öll sínum leikjum.

Í B-deildinni sótti Ægir Vængi Júpíters heim. Þorkell Þráinsson kom Ægi yfir á 25. mínútu en heimamenn jöfnuðu á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan var 1-1 í leikhléi. Vængirnir bættu svo við tveimur mörkum í síðari hálfleik, það síðara skoraði Matthías Björnsson, fyrrum leikmaður Ægis. Fallegt mark. Lokatölur 3-1.

KFR lék gegn Reyni Sandgerði í Reykjaneshöllinni. Reynismenn skoruðu eina mark leiksins á 43. mínútu. Lokatölur 1-0.

Ægir er í 4. sæti síns riðils með 3 stig en KFR á botninum í sínum riðli án stiga.

Í C-deildinni lék Hamar gegn Vatnaliljum og voru Hvergerðingar grátlega nálægt sigri. Fyrri hálfleikur var markalaus en Hrannar Einarsson kom Hamri yfir í síðari hálfleik. Allt stefndi í fyrsta sigur Hamars í riðlinum en Vatnaliljurnar náðu að jafna með „flautumarki“ á fjórðu mínútu uppbótartíma. Lokatölur 1-1.

Stokkseyri mætti GG í Reykjaneshöllinni. Þórhallur Aron Másson brenndi af vítaspyrnu í fyrri hálfleik, áður en Eyþór Gunnarsson kom Stokkseyringum yfir á 27. mínútu en GG jafnaði metin rúmum fimm mínútum síðar. Staðan var 1-1 í hálfleik en GG nýtti sín færi betur í seinni hálfleik og sigraði 3-1. Dramatíkin var mikil og fór Erling Ævarr Gunnarsson meðal annars rifbeinsbrotinn af velli.

Hamar er í 4. sæti riðilsins með 3 stig en Stokkseyri er í botnsætinu með 1 stig.

Fyrri greinÞórsarar tryggðu sér oddaleik
Næsta greinÖkklabrotnaði við Gljúfrabúa