Hamarsmenn unnu seiglusigur á Erninum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í rokinu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 4-3.
Hvergerðingar voru með vindinn í bakið í fyrri hálfleik en liðunum gekk illa að spila knettinum á milli vallarhelminga sökum hvassviðris. Hamar var hættulegri fram á við og á 19. mínútu kom Logi Geir Þorláksson þeim yfir með snyrtilegu skoti utan teigs í bláhornið.
Fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Jorge Blanco forystu Hamars með skoti af stuttu færi eftir klafs í vítateig Arnarins. Í kjölfarið fékk Örninn nokkur hættuleg færi en Nikulás Magnússon fór mikinn í marki Hamars og tók að minnsta kosti tvær léttar sjónvarpsmarkvörslur.
Fyrirliðinn Ágúst Örlaugur Magnússon kom Hamri svo í 3-0 þegar hann hamraði boltann í netið með enninu eftir hornspyrnu á 40. mínútu. Hvergerðingar voru fullir sjálfstrausts þegar þarna var komið en fengu þó mark í andlitið þremur mínútum síðar þegar Örninn minnkaði muninn með hnitmiðuðu skoti utan teigs, 3-1 í hálfleik.
Vindáttin breyttist ekkert í leikhléinu og því spilaði Örninn með vindinn í bakið í seinni hálfleik. Logi Geir var hins vegar ekki á þeim buxunum að hleypa ránfuglinum nálægt sér og hann kom Hamri í 4-1 á 59. mínútu með góðu marki.
Hamarsmenn komnir í vænlega stöðu, en leikurinn langt frá því að vera búinn. Örninn skoraði tvö mörk undir lok leiks og þegar tvær mínútur voru eftir var staðan orðin 4-3. Hvergerðingar héldu þó út og unnu sinn annan leik í riðlinum.
Hamar er nú í 2. sæti riðilsins með 6 stig, eins og KFS sem er í toppsætinu, en Hamar hefur lakara markahlutfall.