Hamar hafði betur á Stokkseyri

Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði tvívegis í leiknum en hér er hann í baráttunni við Erling Ævarr Gunnarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á Stokkseyri í uppgjöri Suðurlandsliðanna í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Stokkseyrarvelli í kvöld.

Það var hart barist á blautu grasinu á Stokkseyri en Hvergerðingar voru sterkari aðilinn þegar leið á fyrri hálfleikinn og Ísak Leó Guðmundsson braut ísinn með glæsilegu aukaspyrnumarki á 31. mínútu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Hamar skoraði tvívegis á upphafsmínútum síðari hálfleiks og gerði þar nánast út um leikinn. Brynjólfur Þór Eyþórsson stakk sér innfyrir á 49. mínútu og skoraði og á 55. mínútu slapp Pétur Geir Ómarsson í gegn og afgreiddi boltann framhjá Eyþóri Atla Finnssyni í marki Stokkseyrar.

Brynjólfur Þór innsiglaði svo 4-0 sigur Hvergerðinga með góðu marki á 79. mínútu.

Hamar er í 2. sæti C-riðilsins með 21 stig en Stokkseyri í 6. sæti með 9 stig.

Fyrri greinSex keppendur frá Selfossi til Bakú
Næsta greinGestir greiða fyrir aðgang að Skálholtsdómkirkju