Hamarsmenn eru komnir í fallsæti í Iceland Express-deild karla í fyrsta sinn í vetur eftir að hafa tapað áttunda leiknum í röð í deildinni í kvöld.
Hamar tók á móti Njarðvík í Hveragerði og það voru heimamenn sem byrjuðu betur í leiknum. Hamar leiddi 29-21 að loknum 1. leikhluta en Njarðvíkingar sneru leiknum sér í vil í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 39-43.
Síðari hálfleikur var jafn en þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum var staðan jöfn, 72-72. Þá skoruðu Njarðvíkingar tvær þriggja stiga körfur í röð sem dugðu þeim til sigurs.
Nerijus Taraskus minnkaði muninn í 77-78 þegar hálf mínúta var eftir og Njarðvíkingar skrefuðu í næstu sókn. Hamar fékk því boltann þegar 17 sekúndur voru eftir á klukkunni en misstu hann útaf og leikurinn rann út í sandinn.
Devin Sweetney var stigahæstur hjá Hamri með 26 stig og 9 fráköst. Darri Hilmarsson nýtti sín skot vel og skoraði 22 stig og Kjartan Kárason skoraði 12 stig.