Hamar í markmannsleit

Ólafur Jósefsson, þjálfari 2. flokks Hamars í knattspyrnu, leitar nú logandi ljósi að markverði til að standa á milli stanganna hjá liðinu í sumar.

Komandi sumar er hið fyrsta sem Hamar teflir fram 2. flokki karla en rekstrarfélag meistaraflokks stofnaði 2. flokk sl. haust. Æfingar hafa gengið vel hjá hópnum utan hvað þar vantar markvörð. Markvörður liðsins meiddist sl. haust og er ekki fyrirsjáanlegt að hann verði klár í slaginn í vor.

Ólafur segir að til greina komi að fá markmann á lánssamningi frá öðru félagi en sú leit hefur gengið erfiðlega. “Markmaðurinn gæti hvort sem er komið af Suðurlandi eða af höfuðborgarsvæðinu, því meistaraflokkurinn okkar æfir eingöngu í Reykjavík og 2. flokkurinn í Hveragerði og á Selfossi. Þetta gæti verið tækifæri fyrir markmann sem er ekki aðalmarkmaður hjá sínu liði og vill komast í lið þar sem hann fær að spila,” sagði Ólafur í samtali við sunnlenska.is.

“Að sjálfsögðu myndum við gæta allra formsatriða gagnvart félagi hans og við erum til í alls konar útfærslur á samstarfi við félag leikmannsins ef á þarf að halda,” sagði Ólafur ennfremur. Áhugasamir geta snúið sér til Ólafs í síma 821-4583 eða sent línu á olijo@talnet.is.

Fyrri greinSkáluðu í repjuolíu
Næsta greinEinvígið við Njarðvík hefst á laugardag