1. deildarlið Hamars er komið í undanúrslit Powerade-bikars kvenna í körfubolta eftir sannfærandi sigur á Stjörnunni í Hveragerði í kvöld, 86-60.
Hamar byrjaði betur og leiddi í 1. leikhluta en Stjarnan skoraði sex síðustu stigin í leikhlutanum og komst yfir, 14-15. Hvergerðingar komust aftur yfir í 2. leikhluta þar sem þær skoruðu 30 stig og náðu tíu stiga forskoti fyrir hálfleik, 44-34.
Hamar lagði þarna grunninn að því sem koma skyldi því í 3. leikhluta höfðu þær öll völd á vellinum og juku forskotið í 24 stig, 68-44. Síðasti fjórðungurinn var jafnari en sigur Hamars var aldrei í hættu.
Íris Ásgeirsdóttir var best í liði Hamars og skoraði 25 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 20 stig og tók 10 fráköst og Katrín Eik Össurardóttir skoraði 13 stig og tók 12 fráköst.
Átta liða úrslitunum lýkur á sunnudaginn og þá verður komið í ljós hvaða þrjú lið verða í pottinum með Hamri.