Það var rosaleg spenna í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld og hiti á pöllunum þar sem Hamar tók á móti Skallagrími í oddaleik um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta á næstu leiktíð.
Staðan í einvíginu var 2-2 þar sem liðin voru búin að vinna sína heimaleiki og það fór á sama veg í kvöld í enn einum spennuleiknum. Hamar sigraði 93-81 og tryggði sér þar með aftur sæti í deild þeirra bestu eftir tólf ára fjarveru.
Munurinn var lítill allan tímann, Hamar leiddi 46-42 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var allur í járnum, allt þar til kom fram á lokamínúturnar.
Þegar þrjár mínútur voru eftir leiddi Hamar 80-79 en þá skoruðu heimamenn sjö stig í röð og bjuggu til forskot sem dugði þeim til leiksloka og munurinn jókst reyndar á lokaandartökunum.
Þegar úrslitin voru ljós brutust út gríðarleg fagnaðarlæti og öruggt að einhverjir munu fagna fram á nótt.
Brendan Howard var stigahæstur Hvergerðinga með 23 stig og 14 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 21 stig og átti mjög góðan leik eins og Jose Medina sem skoraði 20 stig og sendi 9 stoðsendingar. Þá var Ragnar Nathanaelsson með drjúgt framlag, 11 stig og 23 fráköst.
Hamar-Skallagrímur 93-81 (26-23, 20-19, 23-23, 24-16)
Tölfræði Hamars: Brendan Howard 23/14 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 21, Jose Medina 20/9 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 11/23 fráköst/3 varin skot, Elías Bjarki Pálsson 8/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 5/5 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 5.