Hamarsmenn eru komnir í vænlega stöðu í undanúrslitaeinvíginu gegn Fjölni í 1. deild karla í körfubolta eftir 97-107 sigur í Grafarvoginum í dag.
Hamar leiðir því 2-0 í einvíginu og þriðji leikur liðanna verður í Hveragerði að kvöldi síðasta vetrardags.
Hamar byrjaði vel og leiddi nánast allan fyrri hálfleikinn en þegar þrjár og hálf mínúta voru til leikhlés komust Fjölnismenn yfir í fyrsta skipti, 43-42, og heimamenn leiddu í hálfleik, 52-50.
Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleiknum, allt þar til á síðustu fimm mínútum leiksins að Hamar skreið framúr. Þegar tvær mínútur voru eftir voru Hvergerðingar komnir með tíu stiga forskot og Fjölnismenn ógnuðu þeim ekki eftir það.
Jose Medina var framlagshæstur Hamarsmanna með 35 stig, 15 stoðsendingar og 8 fráköst. Jaeden King skoraði 36 stig og tók 9 fráköst.
Fjölnir-Hamar 97-107 (25-28, 27-22, 22-29, 23-28)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 36/9 fráköst, Jose Medina 35/8 fráköst/15 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 13/8 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 9, Daníel Sigmar Kristjánsson 8/5 fráköst, Birkir Máni Daðason 6.