Hamar sem leikur í 2. deild karla lenti í bullandi vandræðum með utandeildarliðið Hönd Mídasar í Bikarkeppni KSÍ í dag. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit.
Leikurinn fór fram á Þorlákshafnarvelli þar sem Grýluvöllur í Hveragerði var ekki tilbúinn. Þrátt fyrir talsverða yfirburði úti á vellinum gekk Hamarsmönnum bölvanlega að nýta færi sín og voru fyrstu níutíu mínútur leiksins markalausar.
Þá voru bæði lið búin að missa mann af velli en leikmaður Handar Mídasar fékk beint rautt spjald á 80. mínútu og fjórum mínútum síðar fékk Hamarsmaðurinn Vigfús Geir Júlíusson sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Í framlengingunni kom Björn Már Ólafsson Hönd Mídasar yfir á 94. mínútu. Hamarsmenn reyndu allt hvað af tók að jafna og áttu hvert færið á fætur öðrum undir lokin. Þegar ein mínúta var eftir af framlengingunni náði Sigurður Gísli Guðjónsson að jafna metin og staðan var 1-1 að loknum 120 mínútum.
Þá var gripið til vítaspyrnukeppni og í henni hafði Hamar loksins betur og skoraði úr fjórum spyrnum af fimm, en Björn M. Aðalsteinsson, markvörður Hamars varði tvær spyrnur frá gestunum og tryggði Hamar torsóttan sigur.