Hamar vann öruggan sigur á KFB í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í dag. Stokkseyri tapaði gegn Kormáki/Hvöt á Blönduósi.
KFB var á undan að skora á Grýluvelli í dag en Pétur Geir Ómarsson jafnaði fyrir Hamar á 34. mínútu og Atli Þór Jónasson kom Hvergerðingum í 2-1 á lokamínútu fyrri hálfleiks. Hamar var sterkari í seinni hálfleik, Magnús Ingi Einarsson bætti við tveimur mörkum og Pétur Geir skoraði aftur í uppbótartímanum og tryggði Hamri 5-1 sigur.
Hamar sigraði nokkuð örugglega í C-riðlinum með 34 stig. Liðið vann ellefu leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur leikjum. Hamar mætir KH í úrslitakeppninni. Fyrri leikurinn í átta liða úrslitum fer fram að Hlíðarenda laugardaginn 19. september og sá síðari miðvikudaginn 23. september í Hveragerði.
Rúnar fékk rautt á Blönduósi
Á Blönduósi komst Kormákur/Hvöt í 1-0 rétt undir lok fyrri hálfleiks. Þeir bættu svo við öðru marki strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks og þá var brekkan orðin brött fyrir Stokkseyringa. Kormákur/Hvöt komst í 3-0 á 65. mínútu og fjórum mínútum síðar fékk Rúnar Birgisson, þjálfari Stokkseyrar, að líta rauða spjaldið, væntanlega vegna ósættis við dómarann. Stokkseyringar náðu í kjölfarið að skjóta sér inni í leikinn með mörkum frá Örvari Hugasyni og Sigurði Sigurvinssyni sem skoruðu með stuttu millibili. Heimamenn skoruðu hins vegar tvívegis á lokakaflanum og tryggðu sér 5-2 sigur.
Stokkseyri lauk keppni í 5. sæti B-riðils með 14 stig, liðið vann fjóra leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði sex leikjum í sumar.