Hamarsmenn eru komnir upp í 3. sæti 1. deildar karla í körfubolta eftir sigur á ÍA í framlengdum leik í Hveragerði í kvöld. Lokatölur urðu 96-88.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en ÍA leiddi að honum loknum, 22-24. Leikurinn var áfram í járnum í 2. leikhluta en Hamar skoraði síðustu 5 stigin í fyrri hálfleik og leiddi 48-45 í leikhléi.
Það var ekki fyrr en í 3. leikhluta að Hamarsmenn komust á skrið, þeir náðu 13 stiga forskoti og staðan var 72-60 í upphafi 4. leikhluta. Skagamenn áttu þá frábæran sprett og jöfnuðu 76-76 og lokakaflinn var æsispennandi. Hamar leiddi 84-82 þegar hálf mínúta var eftir en ÍA jafnaði úr tveimur vítaskotum þegar fjórar sekúndur voru eftir og knúðu fram framlengingu.
Í framlengingunni voru Hamarsmenn einráðir og unnu að lokum öruggan sigur.
Jaeden King átti frábæran leik fyrir Hamar í kvöld, skoraði 32 stig og tók 13 fráköst en Jose Medina var sömuleiðis drjúgur og náði þrefaldri tvennu, 23 stigum, 10 fráköstum og 12 stoðsendingum.
Hamar-ÍA 96-88 (22-24, 26-21, 22-15, 14-24, 12-4)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 32/13 fráköst, Jose Medina 23/10 fráköst/12 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 19/8 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 12/13 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 6/4 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 4.