Hamar átti erfitt uppdráttar framan af leik þegar liðið heimsótti Breiðablik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hvergerðingar réttu úr kútnum í seinni hálfleik en lokatölur voru 85-60.
Hvergerðingar áttu undir högg að sækja strax frá upphafi, Breiðablik komst í 18-4 eftir fimm mínútna leik og staðan að loknum 1. leikhluta var 28-11. Baslið hélt áfram í 2. leikhluta og munurinn í hálfleik var 23 stig, 46-23.
Breiðablik náði mest 31 stiga forskoti í 3. leikhluta en eftir það bættu Hvergerðingar ráð sitt og skoruðu fimmtán stig í röð undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða. Þá var staðan orðin 60-44 en munurinn var of mikill til þess að Hamarsmenn næðu að brúa bilið í síðasta fjórðungnum.
Danero Thomas var stigahæstur hjá Hamri með 22 stig, Bjarni Rúnar Lárusson skoraði 14, Stefán Halldórsson 9, Ingvi Guðmundsson 8, Bragi Bjarnason og Sigurbjörn Jónasson 4/ og þeir Halldór Gunnar Jónsson og Aron Freyr Eyjólfsson skoruðu 2 stig hvor.
Næsti leikur Hamars er stórleikur gegn FSu í Hveragerði þann 5. desember.