Hamar gerði ekki góða ferð að Hlíðarenda í kvöld þar sem liðið mætti Val í 1. deild karla í körfubolta.
Hvergerðingar byrjuðu leikinn illa og Valur leiddi 16-6 að loknum 1. leikhluta. Liðin skiptust á áhlaupum í 2. leikhluta en undir lok hans setti Samuel Prescott jr. niður tvo þrista og lagaði stöðuna talsvert fyrir Hamar, 31-27 í hálfleik.
Hamar hékk í Val allan 3. leikhlutann en í þeim fjórða stungu heimamenn af á síðustu fjórum mínútunum og tryggðu sér tuttugu stiga sigur, 83-63.
Að loknum þremur leikjum er Hamar í 4. sæti deildarinnar með tvö stig.
Tölfræði Hamars: Samuel Prescott Jr. 25 stig/6 fráköst, Örn Sigurðarson 18 stig/9 fráköst (25 í framlag), Oddur Ólafsson 7 stig, Þorsteinn Gunnlaugsson 5 stig/6 fráköst, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 5 stig, Sigurður Orri Hafþórsson 3 stig.