Hamar lagði Val í framlengingu

Karlalið Hamars lagði Valsmenn að velli í framlengdum leik í 1. deildinni í körfubolta í kvöld. Staðan var 66-66 að loknum venjulegum leiktíma en lokatölur voru 78-81.

Leikurinn var jafn allan tímann og vörnin í hávegum höfð. Liðin skiptust á um að halda forystunni en Hamar komst mest sex stigum yfir, 25-31, í 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 30-34.

Valsmenn komust yfir aftur með því að skora fyrstu átta stigin í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 48-47. Síðasti fjórðungurinn var spennandi þar sem Valur var alltaf skrefinu á undan en Hamar komst yfir, 64-66, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Jerry Hollis fékk sína fimmtu villu í upphafi 4. leikhlutans en þá steig Örn Sigurðarson upp en hann skoraði níu stig í síðasta fjórðungnum.

Valur jafnaði þegar 21 sekúnda var eftir af leiknum og þrátt fyrir tvær tilraunir í lokasókn Hamars tókst Hvergerðingum ekki að skora sigurkörfuna í venjulegum leiktíma.

Framlengingin var æsispennandi og Valur náði fjögurra stiga forskoti, 76-72. Þá settu Hvergerðingar aftur í gírinn en þeir skoruðu fjögur síðustu stigin í framlengingunni og sigruðu 78-81.

Örn Sigurðarson og Ragnar Nathanaelsson voru frábærir í liði Hamars í kvöld. Örn skoraði 28 stig og tók 14 fráköst og Ragnar skoraði 18 stig og tók 20 fráköst auk þess að verja 6 skot. Jerry Hollis skoraði 15 stig og tók 10 fráköst, Lárus Jónsson skoraði 10, Oddur Ólafsson 8 og Halldór Gunnar Jónsson 2.

Þegar ein umferð er eftir af deildinni eru Haukar komnir á toppinn með 28 stig, eins og Valsmenn. Hamar er í 3. sæti með 26 stig og Höttur í 4. sæti með 24 stig. Hamar tekur á móti FSu í lokaumferðinni á föstudagskvöld.

Fyrri greinÞór fær KR í úrslitakeppninni
Næsta greinSextíu sóttu um starf umhverfisfulltrúa