Hamar leiðir eftir hörkuleik í kvöld

Jose Medina var sterkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar hefur tekið forystuna í einvíginu gegn Selfossi í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta. Þriðji leikur liðanna var í Hveragerði í kvöld og þar vann Hamar 85-74.

Hvergerðingar tóku forystuna strax í 1. leikhluta og leiddu í leikhléi, 43-37. Selfoss náði að komast yfir í 3. leikhluta, sem var jafn og spennandi en Hamar skoraði síðustu fimm stigin í leikhlutanum og átti svo góða byrjun í 4. leikhluta og þá var staðan orðin 75-64. Selfyssingar náðu ekki að svara fyrir sig á lokakaflanum og Hamar sigraði 85-74.

Jose Aldana var öflugur hjá Hamri með 27 stig og 8 stoðsendingar og Ruud Lutterman skoraði 18 stig og tók 10 fráköst. Hjá Selfyssingum var Terrence Motley atkvæðamestur með 19 stig og 9 fráköst og Kennedy Aigbogun skoraði 17 stig og tók 10 fráköst.

Fjórði leikur liðanna varður á Selfossi á fimmtudaginn og þar geta Hamarsmenn tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígið um sæti í úrvalsdeildinni. Andstæðingurinn þar verður Vestri sem sópaði Skallagrím út úr undanúrslitunum í kvöld.

Tölfræði Hamars: Jose Medina Aldana 27/5 fráköst/8 stoðsendingar, Ruud Lutterman 18/10 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 14/7 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 10/12 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 7, Óli Gunnar Gestsson 4/5 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 3, Maciek Klimaszewski 2/4 fráköst.

Tölfræði Selfoss: Terrence Motley 19/9 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Kennedy Aigbogun 17/10 fráköst/5 stoðsendingar, Kristijan Vladovic 17/5 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 13, Sveinn Búi Birgisson 6, Sigmar Jóhann Bjarnason 2.

Fyrri greinSelfyssingar strönduðu á Haukavörninni
Næsta greinStærsti verksamningur í sögu sveitarfélagsins