Þrátt fyrir frábæran útisigur á Skallagrími í kvöld eru Hamarsmenn ekki á leiðina í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta.
Hvergerðingar unnu Skallagrím 90-100 í næstsíðustu umferð deildarinnar í kvöld. Hamar hefur nú 22 stig í 6. sæti en ÍA er þar fyrir ofan með 24 stig. Ef Hamar vinnur botnlið Reynis í lokaumferðinni og ÍA tapar fyrir toppliði Þórs Ak enda liðin jöfn að stigum. Það dugar Hamri þó ekki því ÍA hefur betur í innbyrðis viðureignum, svo munar þremur stigum, 188-185.
En að leiknum í kvöld. Hamarsmenn voru frábærir í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 16-27. Stórskotahríð Hvergerðinga hélt áfram í 2. leikhluta en staðan í leikhléi var 40-56.
Seinni hálfleikurinn var jafnari, Skallagrímur saxaði á forskot Hamars í 2. leikhluta en Hvergerðingar náðu að halda heimamönnum frá sér á lokasprettinum og vinna tíu stiga sigur.
Þorsteinn Gunnlaugsson og Samuel Prescott áttu stórleik fyrir Hamar þar sem Þorsteinn daðraði við þrefalda tvennu, og var aðeins tveimur stoðsendingum frá henni.
Tölfræði Hamars: Samuel Prescott Jr. 22 stig/12 fráköst/5 stolnir/3 varin skot, Þorsteinn Gunnlaugsson 20 stig/12 fráköst/8 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 19 stig/6 fráköst/14 stoðsendingar, Snorri Þorvaldsson 16 stig, Bjartmar Halldórsson 12 stig/6 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson 11 stig.
Síðasti leikur Hamars í deildinni í vetur verður gegn Reyni á heimavelli þann 18. mars.