Hamar lét KF hafa fyrir hlutunum

Það var mögnuð stemmning á Grýluvelli í Hveragerði í dag þar sem einn af úrslitaleikjum 2. deildar karla í knattspyrnu fór fram.

Hamar tók þá á móti Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar en gestirnir þurftu að fá eitt stig útúr leiknum til þess að tryggja sér sæti í 1. deild að ári.

Það var hart barist á blautum vellinum í dag og gestirnir voru fyrri til að láta til sín taka þegar Þórður Birgisson átti þrumuskot í þverslána á marki Hamars á 35. mínútu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks skoruðu svo Hamarsmenn mark sem virtist vera löglegt en dómarinn dæmdi það af vegna brots á markmanni KF.

Eftir markalausan fyrri hálfleik fóru hlutirnir að gerast í síðari hálfleik og strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks kom Jón Kristjánsson gestunum yfir. Forysta þeirra stóð þó stutt því Abdoulaye Ndiaye jafnaði fyrir Hamar úr vítaspyrnu á 58. mínútu.

Á 65. mínútur skoraði svo Aron Már Smárason glæsilegt mark og kom Hamri í 2-1. Ragnar Sigurjónsson lék upp hægri kantinn og sendi fyrir þar sem Aron tók við boltanum og þrumaði í þverslána og inn.

Tveimur mínútum síðar skoraði KF mark sem var dæmt af vegna rangstöðu og voru gestirnir verulega ósáttir við þann dóm.

Eins og í fyrri hálfleik var töluverð harka í leiknum þar sem bæði lið voru föst fyrir. Færin voru ekki mörg en á 80. mínútu jafnaði KF metin eftir hornspyrnu þar sem Þórður Birgisson var illa valdaður á fjærstöng og skoraði með skalla af stuttu færi.

Fögnuður gestanna var gríðarlegur en í fagnaðarlátunum rotaðist einn stuðningsmaður þeirra eftir að öryggisvörður hafði hent honum útaf vellinum. Allt varð vitlaust í stúkunni við þetta þar sem lá við handalögmálum þegar stuðningsmenn KF gerðu aðsúg að gæslunni á vellinum. Áhorfandinn var borinn á brott en var víst fljótur að jafna sig. Sjúkrabíll var kallaður á vettvang og fékk áhorfandinn aðhlynningu þar.

Leikurinn stöðvaðist á meðan á þessu stóð en fátt gerðist eftir að dómarinn flautaði aftur til leiks. Hamarsmenn reyndu hvað þeir gátu að sækja og komust nálægt því að skora þegar Sene Abdalha og Aron Smárason rétt misstu af góðri fyrirgjöf Ragnars frá hægri.

Niðurstaðan 2-2 jafntefli og KF upp, en Hamar lauk mótinu í 9. sæti með 21 stig.

Fyrri greinStórsigur eftir tuttugu ára hlé
Næsta grein„Strax búin að ná einu markmiði“