Hamar vann nauman sigur á botnliði Kónganna í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Ægir og KFR töpuðu í leikjum kvöldsins.
Hamar sótti Kóngana heim á Leiknisvöll í Breiðholti og þar byrjuðu heimamenn betur. Kóngarnir komust yfir á 8. mínútu og tvöfölduðu forystuna svo á 35. mínútu. Hamar náði að jafna fyrir hálfleik og þar voru að verki þeir Sindri Símonarson og Tómas Hassing.
Staðan var 2-2 í hálfleik og Hvergerðingar byrjuðu betur í síðari hálfleik. Hrannar Einarsson og Daníel Rögnvaldsson skoruðu með stuttu millibili eftir um fimmtán mínútna leik, en Kóngarnir náðu að klóra í bakkann á lokamínútu leiksins.
Lokatölur 3-4 og Hamar situr í 3. sæti D-riðils 4. deildarinnar, en á leik til góða á Álftanes sem er í 2. sæti.
Ægir áfram í fallsæti
Í 2. deildinni heimsóttu Ægismenn KV á KR-völlinn. Heimamenn komust yfir strax á 3. mínútu en Daniel Kuczynski jafnaði metin á 15. mínútu. KV náði forystunni aftur á 40. mínútu og leiddi í hálfleik, 2-1. Í síðari hálfleik voru það KV menn sem nýttu sín færi en þeir bættu við mörkum á 57. og 74. mínútu og úrslit leiksins urðu 4-1.
Ægismenn eru í 11. sæti deildarinnar með 2 stig. Þeir mæta botnliði KF í næstu umferð, á heimavelli þann 5. júlí.
KFR enn án sigurs
Það gengur ekkert hjá Knattspyrnufélagi Rangæinga að safna stigum í 3. deildinni. Liðið fékk Reyni Sandgerði í heimsókn í kvöld og lauk leiknum með 0-1 sigri gestanna. Markið leit dagsins ljós á 80. mínútu leiksins.
Í síðustu umferð tapaði KFR 2-1 gegn Vængjum Júpíters. Breki Einarsson kom KFR yfir snemma leiks en Vængirnir svöruðu með tveimur mörkum í fyrri hálfleik.
KFR er á botni 3. deildarinnar með eitt stig.