Hamar lagði Njarðvík með minnsta mun, 64-65, þegar liðin mættust í Domino's-deild kvenna í körfubolta í Reykjanesbæ í kvöld.
Hamri gekk ekki vel í upphafi leiks. þær lentu 9-2 undir og staðan var 15-9 að loknum 1. leikhluta. Sóknarleikur liðsins lagaðist í 2. leikhluta en vörnin var götótt á köflum og Njarðvíkingar juku forskot sitt í 34-25 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þriðji leikhlutinn var í járnum, Hamar náði að minnka muninn í 45-40 undir lok leikhlutans en Njarðvík skoraði fjögur síðustu stigin í leikhlutanum og staðan var 49-40 þegar sá fjórði hófst.
Hamarskonur þjörmuðu hins vegar vel að Njarðvíkingum í síðasta fjórðungnum, náðu strax að minnka muninn í fjögur stig og þegar rúm mínúta var eftir af leiknum tók Hamar 0-6 áhlaup og komst yfir, 59-61.
Lokamínútan var æsispennandi. Njarðvík komst yfir, 64-63, þegar átta sekúndur voru eftir af leiknum en Di’Amber Johnson átti síðasta orðið en hún lagði boltann í körfu Njarðvíkinga þegar þrjár sekúndur voru eftir á klukkunni. Sá tími dugði Njarðvíkingum ekki og þriggja stiga flautuskot geigaði.
Johnson var besti maður vallarins og skoraði 21 stig, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 14, Íris Ásgeirsdóttir 12, Marín Laufey Davíðsdóttir 10, Dagný Lísa Davíðsdóttir 6 og Sóley Guðgeirsdóttir 2.
Hamar er í 5. sæti deildarinnar að átta umferðum loknum með 8 stig.