Hamar og KFR sigruðu í leikjum sínum í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi.
Hamar fékk KB í heimsókn og þar skoraði Sam Malson eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks.
Á Hvolsvelli var meiri atgangur en þar voru Berserkir í heimsókn og leiddu gestirnir 0-2 eftir 27 mínútna leik. KFR skoraði hins vegar bæði á lokamínútu fyrri hálfleiks og upphafsmínútu seinni hálfleiks og jafnaði 2-2. Rangæingar létu ekki þar við sitja heldur bættu við tveimur mörkum og sigruðu 4-2. Magnús Viktorsson skoraði tvívegis fyrir KFR og Arnar Einarsson og Hjörvar Sigurðsson áttu hin tvö mörkin.
Hamar er í 2. sæti A-riðils með 6 stig en KFR er í 4. sæti með 3 stig.