Lið Hamars og FSu töpuðu bæði heimaleikjum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar fékk Breiðablik í heimsókn og á Selfossi mættust FSu og Fjölnir.
Blikar mættu sterkir til leiks í Hveragerði og leiddu í hálfleik, 36-56. Seinni hálfleikurinn var jafnari en Hvergerðingar náðu ekki að saxa á forskot gestanna að neinu ráði.
Erlendur Stefánsson var stigahæstur í liði Hamars með 20 stig, Örn Sigurðarson skoraði 14, Christopher Woods var sömuleiðis með 14 stig og 13 fráköst að auki og Hilmar Pétursson skoraði 11 stig.
FSu tapaði 80-90 gegn Fjölni en ekki hafa borist upplýsingar úr Iðu um gang leiksins og tölfræði hans.
Hamarsmenn eru komnir með annan fótinn inn í úrslitakeppnina og þurfa einn sigur í síðustu tveimur leikjunum, eða að treysta á að Vestri vinni ekki síðustu þrjá leiki sína. Hamar hefur 20 stig í 5. sæti, Vestir er með 16 stig í 6. sæti og þar fyrir neðan er FSu með 14 stig í 7. sæti.