Hamar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitarimmunni um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta með því að leggja ÍA, en FSu tapaði fyrir Val og sú viðureign fer í oddaleik.
Leikur ÍA og Hamars var jafn framan af en í 2. leikhluta náðu Hvergerðingar undirtökunum og leiddu í hálfleik, 38-48. Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Hvergerðingar héldu Skagamönnum frá sér og tryggðu sér sigurinn, 94-103. Þar með sópuðu Hvergerðingar ÍA 2-0 út úr þessari rimmu.
Julian Nelson skoraði 28 stig fyrir Hamar og tók 11 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 20 stig, Lárus Jónsson 16, Örn Sigurðarson 13 og Bjarni Rúnar Lárusson 12.
FSu var sterkari aðilinn framan af leiknum gegn Val að Hlíðarenda og Selfyssingar leiddu í hálfleik, 40-45. Heimamenn voru hins vegar ákveðnari í síðari hálfleik, komust fljótlega yfir og héldu forskotinu til loka, 92-78. Liðin mætast í oddaleik í Iðu á þriðjudagskvöld og liðið sem sigrar þann leik mætir Hamri í einvígi um sæti í efstu deild.
Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 31 stig, Collin Pryor skoraði 17 og tók 15 fráköst og Hlynur Hreinsson skoraði 13 stig.