Hamar tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld þegar liðið sótti Vestra heim á Ísafjörð.
Leikurinn var jafn og spennandi lengst af en Hamar leiddi í leikhléi, 39-44. Vestramenn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum en Hamri gekk ekkert að skora á lokamínútunum. Vestri gerði 13-2 áhlaup og breytti stöðunni úr 77-77 í 90-79 og þær urðu lokatölur leiksins.
Everage Richardson var stigahæstur Hamarsmanna með 20 stig og 10 fráköst, Ragnar Ragnarsson skoraði 19 og Michael Philips 16.
Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 34 stig, tveimur stigum á eftir Hetti. Vestri er í 4. sætinu með 22 stig.