Hamar náði ekki að stríða Valskonum

Kvennalið Hamars er úr leik í Powerade-bikarnum í körfubolta eftir stórt tap gegn úrvalsdeildarliði Vals í Hveragerði í kvöld, 39-86.

Valur var fremri á öllum sviðum körfuboltans og Ágúst Björgvinsson, þjálfari gestanna, gat hvílt byrjunarlið sitt megnið af síðari hálfleik. Ljósið í myrkrinu hjá Hvergerðingum var þó ágætis barátta margra leikmanna, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Gestirnir voru yfir allan tímann, skoruðu fyrstu sjö stig leiksins og leiddu að loknum 1. leikhluta 7-20. Í 2. leikhluta varð munurinn mestur 26 stig, 10-36, en staðan í hálfleik var 20-44. Munurinn jókst stórlega í 3. leikhluta og að lokum skildu 47 stig liðin að, 39-86.

Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 16 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoruðu 5, Dagný Lísa Davíðsdóttir 4, Helga Vala Ingvarsdóttir 3 og þær Rannveig Reynisdóttir, Jenný Harðardóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoruðu allar 2 stig en Álfhildur var með 9 fráköst að auki.

Þrír fyrrum leikmenn Hamars voru stigahæstir í liði Vals; Guðbjörg Sverrisdóttir með 16 stig, Jaleesa Butler með 15 og Kristrún Sigurjónsdóttir með 13 stig.

Fyrri greinFjórir fengu styrki frá Hljómlistarfélaginu
Næsta greinRíkisstjórnin fundaði á Selfossi