Hamar náði í stig úti á Nesi

Hamar og Grótta skildu jöfn, 0-0, í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Ægir fékk skell á heimavelli og í 3. deildinni tapaði KFR á útivelli gegn Víði.

Hamar og Grótta mættust á gervigrasvellinum á Seltjarnarnesi og hvorugu liðinu tókst að koma knettinum í netið. Hamarsmenn vörðust vel í leiknum en áttu sín færi og voru nálægt því að komast yfir í fyrri hálfleik þegar sóknarmaður Gróttu var nærri því að setja knöttinn í eigið net eftir hornspyrnu. Það var besta færi Hamars í leiknum en Grótta fékk ágæt færi undir lok leiksins án þess að ná að skora. Annars einkenndist leikurinn af mikilli baráttu þar sem liðunum gekk illa að spila boltanum í rokinu á Nesinu.

Það var meira fjör í Þorlákshöfn þar sem gestirnir í KV léku á alls oddi og fóru með 0-4 sigur af hólmi. KV var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en staðan í leikhléinu var 0-2. Leikurinn jafnaðist í seinni hálfleik og bæði lið áttu nokkur hálffæri. Á 80. mínútu fengu gestirnir síðan hræódýra vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr og fjórða mark leiksins kom síðan í uppbótartíma.

Fyrsta umferð 3. deildarinnar er spiluð núna um helgina og KFR sótti Víði heim í Garðinn í fyrsta leik. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en heimamenn komust yfir á 25. mínútu. Fjórum mínútum síðar jafnaði Reynir Björgvinsson fyrir KFR og staðan var 1-1 í hálfleik.

KFR lék með vindinn í bakið í síðari hálfleik en Rangæingar ekki að nýta sér það. Á 67. mínútu skoraði Víðir sigurmarkið úr einu af örfáum markskotum liðsins í seinni hálfleiknum. Boltinn fór í varnarmann og breytti um stefnu framhjá Pétri Péturssyni markmanni KFR og lokatölur urðu 2-1.

Fyrri grein„Úrslitin sennilega sanngjörn“
Næsta greinBjartmar á Útlaganum