Hamar tók á móti Skallagrím í 1. umferð 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í Hveragerði í kvöld. Hamar sigraði 3-2 eftir hörkuleik.
Leikurinn byrjaði fjörlega og Guido Rancez kom Hamri yfir strax á 4. mínútu leiksins. Skallagrímur jafnaði tæpum tíu mínútum síðar og gestirnir bættu svo við forystuna á 33. mínútu.
Staðan var 1-2 í hálfleik og fjörið minnkaði ekkert í seinni hálfleik. Það var hiti í mönnum á löngum köflum og dómarinn útdeildi gulum spjöldum hægri, vinstri. Hamarsmenn léku manni fleiri síðasta hálftímann eftir að leikmaður Skallagríms fékk sitt annað gula spjald og manni fleiri var eftirleikurinn auðveldur fyrir Hamar.
Tobías Breiðfjörð Brynleifsson jafnaði fyrir Hamar af miklu harðfylgi á 65. mínútu og á 80. mínútu skoraði Rodrigo Depedris sigurmarkið með þrumuskoti úr teignum eftir vel útfærða sókn Hamars þar sem bakvörðurinn Jón Bjarni Sigurðsson var arkitektinn.