Lið Hamars og Ægis eru bæði komin í 2. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir góða sigra í dag.
Hamar mætti KFS á Helgafellsvegi í Vestmannaeyjum. Hrannar Einarsson og Magnús Benediktsson komu Hamri í 0-2 í fyrri hálfleik og þannig var staðan í leikhléi.
Samuel Malson bætti þriðja marki Hamars svo við í upphafi síðari hálfleiks. KFS minnkaði muninn á 71. mínútu en fjórum mínútum síðar skoraði Malson aftur fyrir Hamar og tryggði sínum mönnum 1-4 sigur.
Ægir, sem leikur í 3. deild, lenti í vandræðum með Ými sem leikur í 4. deildinni. Leikið var á grasi í Þorlákshöfn þar sem vindurinn hafði töluverð áhrif á leikinn. Ægismenn sóttu undan vindi í fyrri hálfleik og komust í 1-0 á 42. mínútu með marki frá Jonathan Hood. Ýmismenn nýttu sínar sóknir betur í seinni hálfleiknum og náðu að komast yfir með tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla um miðjan hálfleikinn.
Ægir sótti stíft í lokin og fjórum mínútum fyrir leiksins jafnaði Hood metin eftir góðan sprett þar sem hann fylgdi eftir eigin stangarskoti. Framlenging varð því raunin og þar náði Þorkell Þráinsson að tryggja sínum mönnum 3-2 sigur.
Hamar mætir Árborg á útivelli í 2. umferðinni og Ægir mætir Álftanesi, einnig á útivelli. Leikirnir fara fram næstkomandi laugardag.