Hamar og Ægir töpuðu sínum leikjum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Hamar fékk Njarðvík í heimsókn á Grýluvöll. Eftir markalausan fyrri hálfleik fóru hlutirnir að gerast en það voru gestirnir sem reiddu fyrr til höggs og voru þeir komnir tveimur mörkum yfir áður en tíu mínútur voru liðnar. Njarðvík bætti þriðja markinu við um miðjan seinni hálfleikinn og því fjórða á 83. mínútu. Hamar klóraði í bakkann á lokamínútu leiksins þegar einn gestanna setti boltann í eigið net en Hvergerðingar voru þá manni færri eftir að Sigurður Kristmundsson fékk rauða spjaldið á 88. mínútu. Lokatölur 1-4.
Ægir heimsótti HK í Kópavoginn og þar voru heimamenn mun líflegri í fyrri hálfleik. HK komst yfir um miðjan fyrri hálfleik og bætti svo öðru marki við á 38. mínútu. Á meðan var fátt um færi hjá Ægismönnum og staðan var 0-2 í hálfleik. Leikurinn jafnaðist nokkuð í síðari hálfleik en þrátt fyrir það gekk Ægi áfram illa að skapa eitthvað í sókninni. Það var ekki fyrr en á lokamínútunni að Darko Matejic slapp í gegn en markvörður HK varði vel frá honum og sigur heimamanna aldrei í hættu.
Heil umferð fór fram í deildinni í kvöld en með sigrinum fór Njarðvík uppfyrir Hamar og eru Hvergerðingar nú í 9. sæti með 9 stig en Ægir kemur þar á eftir með 8 stig. Reynir Sandgerði vann ÍR í kvöld og eru Reynismenn þá komnir með 7 stig þannig að botnbaráttan í deildinni er að verða æsispennandi.