Hamar og Ægir töpuðu leikjum sínum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld en KFR vann góðan sigur í 3. deildinni.
Hamar heimsótti HK þar sem heimamenn voru sterkari og sigruðu 4-0. Staðan var 2-0 í hálfleik.
Ægir fékk ÍR í heimsókn og var leikur liðanna markalaus allt fram á lokamínúturnar að ÍR skoraði eina mark leiksins. Leikurinn var jafn lengst af en Hugi Jóhannesson markvörður var besti leikmaður Ægis.
Á Hvolsvelli tók KFR á móti ÍH en Hafnfirðingarnir eru í efri hluta deildarinnar. Þetta var hörkuleikur en Rangæingar sigruðu 4-3. Helgi Ármannsson skoraði tvö fyrstu mörk KFR og Guðmundur Garðar Sigfússon það þriðja en staðan var 3-2 í hálfleik. ÍH jafnaði í upphafi síðari hálfleiks en Helgi skoraði sigurmarkið og innsiglaði um leið þrennuna.
KFR er í 6. sæti 3. deildarinnar með 16 stig en í 2. deildinni eru Ægir og Hamar að berjast í neðri hlutanum. Ægir er í 10. sæti með 14 stig en Hamar er í 11. sæti með 10 stig.