Lið Hamars og Þórs eru komin í 16-liða úrslit bikarkeppni karla í körfubolta en lið FSu er úr leik.
Hamar tók á móti ÍA á föstudagskvöld í Frystikistunni í Hveragerði. Heimamenn höfðu undirtökin allan tímann og leiddu í hálfleik 45-34. Lokatölur urðu 91-77.
Samuel Prescott jr. var stigahæstur hjá Hamri með 38 stig, Örn Sigurðarson skoraði 26 og Oddur Ólafsson 13, auk þess sem hann átti 10 stoðsendingar.
Þórsarar heimsóttu ÍG til Grindavíkur í gær og unnu öruggan sigur, 67-121. Vance Hall var stigahæstur Þórsara með 30 stig, þar af 7/7 í þristum á rúmlega 19 mínútum. Ragnar Ágúst Nathanaelsson skoraði 21 stig og tók 9 fráköst á 21 mínútu. Ungu leikmennirnir í liði Þórs stóðu sig vel í leiknum. Magnús Breki skoraði 11 stig, Jón Jökull 10 og Hraunar Karl 9 auk þess sem hann sendi 10 stoðsendingar.
Í kvöld mættust svo úrvalsdeildarliðin FSu og Grindavík í Grindavík. Leikurinn var jafn í upphafi en Grindavík náði forskoti fyrir leikhlé, 41-34. Heimamenn gerðu svo út um leikinn í 3. leikhluta og unnu að lokum 91-71.
Gunnar Ingi Harðarson var stigahæstur hjá FSu með 20 stig, Ari Gylfason skoraði 12, Chris Caird 11 og Svavar Ingi Stefánsson 10.
Dregið verður í 16-liða úrslitin í vikunni en leikirnir fara fram í byrjun desember.