Ægir og Hamar unnu leiki sína í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en KFR tapaði á sama tíma.
Ægir mætti KÁ á Ásvöllum í Hafnarfirði og þar skoraði Ásgrímur Þór Bjarnason tvívegis fyrir Ægi með tveggja mínútna millibili snemma í fyrri hálfleik. KÁ minnkaði muninn á 37. mínútu og fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum, lokatölur 1-2.
Hamar lenti í kröppum dansi þegar liðið sótti Létti heim á ÍR-völlinn í Breiðholti. Heimamenn komust yfir á 22. mínútu en Sam Malson jafnaði metin á 29. mínútu. Tveimur mínútum síðar skoruðu Léttismenn aftur og staðan var 2-1 í hálfleik. Malson jafnaði aftur á 56. mínútu og Pétur Geir Ómarsson tryggði Hvergerðingum svo sigurinn með þriðja marki Hamars þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. Lokatölur 2-3.
Á Fylkisvellinum í Árbæ kom Helgi Ármannsson KFR yfir strax á 8. mínútu gegn Elliða. Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum á næstu sex mínútunum og bættu svo við þriðja markinu á 20. mínútu. Staðan orðin 3-1 eftir tuttugu mínútna leik og liðin létu þar við sitja.
Hamar er áfram í 2. sæti C-riðils með 18 stig og í D-riðlinum sitja Ægismenn í toppsætinu með 13 stig en KFR er í 3. sæti með 10 stig.