Hamar og Árborg gerðu jafntefli í leikjum sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Hamar mætti KÁ í hörkuleik en Árborg tapaði óvænt stigum gegn botnliði RB.
Á Ásvöllum í Hafnarfirði kom Przemyslaw Bielawski Hamri yfir á 18. mínútu en KÁ svaraði með tveimur mörkum með stuttu millibili undir lok fyrri hálfleiks. Ásvellingar fengu svo vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleik og skoruðu úr henni, 3-1. Hamar átti góðan kafla í kjölfarið og Tóbías Breiðfjörð Brynleifsson og Óliver Þorkelsson skoruðu báðir og breyttu stöðunni í 3-3. Hvergerðingum tókst ekki að skora sigurmarkið, þrátt fyrir að ljúka leik manni fleiri eftir að leikmaður KÁ fékk rautt spjald á 79. mínútu.
Árborg tapaði niður vænlegri stöðu þegar þeir mættu stigalausu liði RB í Reykjaneshöllinni. Magnús Hilmar Viktorsson kom Árborg yfir með marki úr vítaspyrnu á 39. mínútu og á 68. mínútu tvöfaldaði Kristinn Sölvi Sigurgeirsson forskot Árborgar. Í kjölfarið fór allt í skrúfuna og RB var búið að jafna leikinn tíu mínútum síðar. Árborg lauk leik manni fleiri þegar leikmaður RB fékk sitt annað gula spjald á 84. mínútu en þrátt fyrir það tókst Árborg ekki að gera út um leikinn með sigurmarki.