Hamar og Árborg unnu leiki sína á heimavelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld og eru nú í 2. og 3. sæti deildarinnar.
Hamar tók á móti KH á Grýluvelli og þar voru það gestirnir sem komust yfir á 18. mínútu með sjálfsmarki markvarðarins Gerard Tomás. Staðan var 0-1 í hálfleik og allt fram á 72. mínútu en Hvergerðingar áttu góðan lokasprett og þeir Máni Snær Benediktsson og Tobías Breiðfjörð Brynleifsson skoruðu sitthvort markið og tryggðu Hamri 2-1 sigur.
Staðan var líka 0-1 í hálfleik á Selfossvelli þar sem Árborg tók á móti KÁ. Gestirnir komust yfir á 6. mínútu og var það eina mark fyrri hálfleiks. Árborgarar hresstust til muna í seinni hálfleik og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, Sigurður Óli Guðjónsson og Aron Darri Auðunsson skoruðu allir, áður en KÁ bætti við sárabótarmarki á lokamínútunum. Lokatölur 3-2.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 17 stig og Árborg er í 3. sæti með 11 stig.