Hamar og Árborg gerðu jafntefli í sínum leikjum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Uppsveitir lutu í gras í níunda skiptið í sumar.
Hamarsmenn heimsóttu topplið Vængja Júpíters í hörkuleik. Vængirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og Atli Fannar Hauksson kom þeim yfir strax á 3. mínútu. Sigurður Arnþórsson tvöfaldaði forskot heimamanna á 44. mínútu og staðan var 2-0 í hálfleik. Hvergerðingar voru hins vegar hvergi nærri hættir. Bjarki Rúnar Jónínuson, sem sneri aftur frá Ægi í vikunni, minnkaði muninn á 52. mínútu og Daníel Arnfinnsson jafnaði metin á 82. mínútu og þar við sat, úrslitin 2-2.
Árborg missteig sig nokkuð óvænt í toppbaráttunni þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Álftanes á útivelli en Álftanes er í harðri fallbaráttu. Leikurinn var markalaus allt þar til á 70. mínútu að Sveinn Sær Vattnes Ingólfsson kom Álftanesi yfir. Árborg sótti stíft í lokin og Aron Freyr Margeirsson jafnaði metin á lokamínútunni og tryggði Árborg 1 stig.
Uppsveitir tóku á móti KFK í blíðunni á Flúðavelli í kvöld. Gestirnir reyndust sterkari og þeir komust yfir með marki úr hornspyrnu á 13. mínútu þegar boltinn hrökk af Víkingi Erlingssyni í eigið net. Staðan var 0-1 í hálfleik en róðurinn þyngdist hjá Uppsveitamönnum í upphafi seinni hálfleiks þegar Sigurjón Reynisson fékk rautt spjald þegar hann lét hnefana tala. Manni fleiri var eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir KFK og Brynjar Jónasson skoraði tvívegis fyrir þá áður en Basilio Jordán klóraði í bakkann fyrir ÍBU. Lokatölur 1-3.
Staða sunnlensku liðanna í 4. deildinni er þannig að Árborg er í 2. sæti með 20 stig, Hamar er í 7. sæti með 12 stig og Uppsveitir eru á botninum, án stiga.
Önnur úrslit í 9. umferð 4. deildarinnar:
Tindastóll 3 – 1 KÁ
1-0 Dominic Furness (’18)
2-0 Max Karl Linus Selden (’40)
3-0 David Toro (’57)
3-1 Þórir Eiðsson (’93)
Skallagrímur 2 – 3 KH
0-1 Tóbías Ingvarsson (‘5)
1-1 Alejandro Serralvo Gomez (’46)
1-2 Sveinn Þorkell Jónsson (’46 )
1-3 Magnús Ólíver Axelsson (’57)
2-3 Sölvi Snorrason (’90)