Hamar og FSu unnu sína leiki í lokaumferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld og tryggðu sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.
Hamar og FSu mættu botnliðum KFÍ og Þórs Ak í kvöld en þrátt fyrir að vera á sitthvorum endanum á töflunni lentu sunnlensku liðin í miklum vandræðum og sigrar þeirra voru langt frá því öruggir.
Hamar heimsótti KFÍ á Ísafjörð þar sem heiamamenn leiddu í hálfleik, 41-38. KFÍ hélt forystunni allt þar til fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þá komust Hvergerðingar yfir, 64-67, og litu ekki um öxl eftir það.
Þorsteinn Gunnlaugsson var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig og 10 fráköst. Örn Sigurðarson skoraði 16 stig, Sigurður Hafþórsson 15 og Julian Nelson 14.
FSu þurfti framlengingu til að knýja fram sigur gegn Þór á Akureyri. Staðan í hálfleik var 46-45 og jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik. Þór leiddi með þremur stigum þegar mínúta var eftir af leiknum en Ari Gylfason jafnaði leikinn af vítalínunni þegar átta sekúndur voru eftir.
Í framlengingunni léku Selfyssingar án Collin Pryor sem fékk sína fimmtu villu um miðjan 4. leikhluta. Þrátt fyrir það hafði FSu frumkvæðið í framlengingunni og sigraði að lokum 95-97.
Ari var stigahæstur hjá FSu með 30 stig, Pryor skoraði 29 stig og tók 14 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 12 stig og sendi 9 stoðsendingar og Maciej Klimaszewski skoraði 10 stig.
Í lok kvölds var því ljóst að Hamar mætir ÍA í úrslitakeppninni og FSu leikur gegn Val. Það er ómögulegt að spá í úrslitin í þeim leikjum en Hamar lauk keppni í 2. sæti deildarinnar með 28 stig en FSu, Valur og ÍA eru öll með 26 stig og innbyrðis viðureignir ráða niðurröðuninni.
Undanúrslit hefjast fimmtudaginn 26. mars en það lið sem vinnur fyrr tvo leiki fer áfram í úrslitin. Í úrslitunum þarf einnig að vinna tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í efstu deild næsta vetur.
Leikur 1 – fimmtudagur 26. mars kl. 19.15 Hveragerði
Leikur 2 – sunnudagur 29. mars kl. 16.00 Vesturgata Akranesi
Leikur 3 – þriðjudagur 31. mars kl. 19.15 Hveragerði EF ÞARF
FSu(3)-Valur(4)
Leikur 1 – fimmtudagur 26. mars kl. 19.15 Iða Selfossi
Leikur 2 – sunnudagur 29. mars kl. 19.30 Vodafone-höllin
Leikur 3 – þriðjudagur 31. mars kl. 19.15 Iða Selfossi EF ÞARF